- Netökuskóli Ekils
- Ökuréttindi
- Ökukennara svæði
- Námskeiðin okkar
- Námsgögn
- Verðskrá
Góðir landsmenn, kæru nemendur, kennarar og aðstandendur - innilega til hamingju með daginn á þessum fallega 17.júní þegar 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis okkar.
Á Akureyri þar sem veðrið er alltaf gott, og bæjarbúar flýja í umvörpum erlendis til að kæla sig niður eins og Friðrik Ómar staðhæfir reglulega í færslum sínum á Fésbókinni, er engin breyting á. :) Veðrið leikur við okkur og nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri munu skreyta bæinn með hvítu kollana sína í dag á meðan jubilantar sturta í sig treo og byrja að hlakka til að hittast aftur að 5 árum liðnum.
Þessi helgi er vissulega stór partur af lífi Akureyringa, bíladagar, jubilantar og nýstúdentar fylla bæinn af lífi, eftirvæntingu og gleði. Við þökkum innilega fyrir heimsóknina og vonum að hún hafi verið ykkur ánægjuleg.
Það sem okkur er mikilvægast
Við vonum að þeir sem yfirgefa bæinn okkar í dag fari varlega á heimleiðinni, munum að það er betra að komast á leiðarenda heill, en að komast þangað hálftíma fyr með tilheyrandi framúrakstri og áhættuhegðun. Förum ekki af stað fyrr en heilsa leyfir (það má alveg stoppa á lögreglustöðinni og blása til að vera alveg viss) og munum að við eigum ástvini sem treysta á að við komum heil heim. Við berum ábyrgð á okkur, öðrum farþegum í bílnum og á vegfarendum sem verða á vegi okkar.
Ofan á þreytu eftir helgina er síðan mikilvægt að gæta að skjánotkun. Við mælum með að ökumenn kynni sér, áður en sest er undir stýri, leiðbeiningar á vefnum skjahaetta.is þar sem ökumenn fá ráð, hvernig hægt sé að minnka líkurnar á umferðaróhappi um allt að 25%.
Staldraðu við áður en þú leggur af stað og lofaðu sjálfum/sjálfri þér að aka varlega og að koma aftur til okkar að ári, eða 5 árum liðnum, til að eiga aðra skemmtilega helgi á Akureyri í blíðunni.
Ekill ökuskóli